Þriðjudagsfyrirlestur: Sigbjørn Bratlie

Þriðjudagsfyrirlestur: Sigbjørn Bratlie
Sigbjørn Bratlie.

Þriðjudaginn 9. nóvember kl. 17-17.40 heldur norski myndlistarmaðurinn Sigbjørn Bratlie Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Foreign languages. Þar mun hann tala um listrannsóknir þær er hann hefur stundað síðastliðinn níu ár og fjalla að mestu um „framandi tungumál“. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Sigbjørn Bratlie útskrifaðist 2002 frá Central Saint Martins lista- og hönnunarskólanum í London. Hann býr bæði í Osló og Gdynia á Eystrasaltsströnd Póllands. Hann vinnur með vídeó, innsetningar og málverk. Verk hans eru hugmyndaleg, greinandi og oft fyndin. Síðastliðin níu ár hafa vídeóverk hans fjallað um framandi tungumál.

Sem gjörningaverkefni eru vídeóverkin lokaniðurstaða ferlis þar sem Bratlie lærði yfir eins árs tímabil framandi tungumál og skapaði í kjölfarið listverkefni þar sem hann hafði samskipti á þessu tungumáli. Verkefnin fjalla um aðstæður þar sem meining og gagnkvæmur skilningur er heftur vegna skorts á orðaforða, lélegri málfræði og slæmum framburði.

Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Þriðjudaginn 16. nóvember mun Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar, halda síðasta Þriðjudagsfyrirlestur ársins, en þeir munu aftur hefja göngu sína í janúar á næsta ári.