Gjöf til Listasafnsins

Gjöf til Listasafnsins
Hólmkell Hreinsson og Hlynur Hallsson.

Nýverið þáði Safnráð Listasafnsins á Akureyri að gjöf tvö verk listakonunnar Elínar Pjet. Bjarnason (1924-2009). Annars vegar sjálfsmynd af listakonunni, sem sjá mátti á sýningu á verkum hennar í Listasafninu fyrr á þessu ári, og hins vegar portrettmynd af Havstein amtsmanni á Möðruvöllum á árunum 1850-1870. Gefandi er Pjetur Hafstein Lárusson, systursonur Elínar. 

Myndinni af Havstein amtsmanni hefur verið fundinn staður á Amtsbókasafninu þar sem það sómir sér vel og veitti Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, verkinu móttöku. Stærsti hluti verka Listasafnins er til sýnis á stofnunum Akureyrarabæjar þar sem gestir geta notið þeirra daglega. 

Elín Pjet. Bjarnason fæddist á Íslandi, ólst upp á Akureyri en bjó í Kaupmannahöfn frá 21 árs aldri til dauðadags. Hún nam myndlist við Listaháskólann í Kaupmannahöfn; fyrst málaralist hjá Vilhelm Lundstrøm, 1945-1950, síðan veggmyndagerð hjá Elof Risebye, 1958-1959, og að lokum grafík hjá Holger J. Jensen 1962. Elín tók reglulega þátt í samsýningum í Kaupmannahöfn, en sýndi aðeins einu sinni á Íslandi; það var ásamt Vigdísi Kristjánsdóttur vefara árið 1968 í Reykjavík. Fyrsta einkasýningin á verkum hennar var haldin í Listasafni ASÍ 2011 en safnið geymir um 550 verk Elínar; málverk, teikningar, grafík og freskur sem systursynir listakonunnar afhentu safni.