Svelgirnir kveðja

Framundan eru síðustu dagar sýningar Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, Svelgir, sem staðið hefur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undanfarnar vikur en sýningunni lýkur næstkomandi sunnudag, 1. mars. Þar sýnir Rósa Sigrún feiknastóra prjónaða og heklaða skúlptúra og vídeóverk með sérsaminni tónlist belgíska hörpuleikarans Sophie Schoonjans. Undirliggjandi þema er kynjamismunun og vinnusemi kvenna. 

Um sýninguna segir Rósa Sigrún: „Það er eitthvað við handavinnu sem nær tökum á mér, hendurnar verða háðar henni og höfuðið finnur ekki frið nema eitthvað sé í gangi milli handanna. Frá útskrift úr Listaháskóla Íslands 2001 hef ég öðru hvoru sett upp nokkuð stórar textílinnsetningar, byggðar upp af hekli og prjóni sem strekkist út í rýminu. Mér finnst áhugavert að skoða þennan efnivið sem á sér svo djúpar rætur í menningarheimi kvenna og láta reyna á þanþolið í þræðinum“. 

Rósa Sigrún Jónsdóttir útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands 1987 og Listaháskóla Íslands 2001. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis og tekið þátt fjölmörgum samsýningum. Rósa var formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík í fjögur ár auk þess að vera fulltrúi SÍM í Listskreytingasjóði og sitja sem varmaður í stjórn félagsins.

HÉR má sjá grein Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa Listasafnsins, sem birtist í Akureyri vikublaði síðastliðinn fimmtudag, 19. febrúar.