Afrakstur rafrænu danslistasmiðjunnar til sýnis

Önnur rafræna smiðja Listasafnsins undir yfirskriftinni Sköpun utan línulegrar dagskrár fór í loftið í október. Að þessu sinni var um að ræða danslistasmiðju í umsjón Urðar Steinunnar Önnudóttur Sahr, dansara og danskennara. Verkefnið fólst í að bjóða börnum og þeirra nánustu að taka þátt í listsmiðju á þeim tíma sem hentar best. Smiðjan var tekin upp í Listasafninu og sýnd á netinu. Þannig gátu þátttakendur horft á smiðjurnar heima hjá sér og unnið verk. Afraksturinn er nú til sýnis í fræðslurými Listasafnsins og stendur til 3. janúar næstkomandi. 

Markmið verkefnisins er að börn fái að kynnast ólíkum listformum þar sem listamenn leiða þau áfram með áherslu á sköpun og sjálfstæði. Börn fá tækifæri til að efla þekkingu sína og tjá sig í gegnum listina á sínum forsendum. Markmiðið er jafnframt að minna á að Listasafnið er öllum opið og börnum er velkomið að taka virkan þátt í menningarlífi bæjarins og njóta listrænnar upplifunar.

Verkefnið er styrkt af SSNE.